Leita í fréttum mbl.is

Lög A.Í.

 

1. grein - Heiti
Heiti félagsins er Almannatengslafélag Íslands. Félagið var stofnað 27. september 2001 og hefur aðsetur í Reykjavík. 

2. grein - Hlutverk
Hlutverk félagsins er: 
  • vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og faglega umræðu meðal þeirra sem starfa á sviði almannatengsla.
  • Að stuðla að menntun og endurmenntun í faginu.
  • Að stuðla að faglegum vinnubrögðum á sviði almannatengsla.
  • Að kynna og efla almannatengsl sem starfsgrein á Íslandi.

3. grein - Verkefni
Félagið hyggst ná tilgangi sínum með því að standa fyrir fundum, ráðstefnum og annarri kynningarstarfsemi, sem og rannsóknum á sviði almannatengsla, með það fyrir augum að bæta þekkingu og skilning á almannatengslum.

4. grein - Inntökuskilyrði
Almannatengsl eru stunduð víða í samfélaginu, meðal annars hjá hinu opinbera, fyrirtækjum, hagsmunasamtökum, félögum og fyrirtækjum sem sérhæfa sig í almannatengslum. Þau geta tekið á sig ólíka mynd, jafnvel innan sama fyrirtækis. Almannatengsl felast til dæmis í upplýsingagjöf og margháttuðum samskiptum við almenning, fjölmiðla, hluthafa, fjárfesta, starfsmenn og aðra hópa sem og ýmis konar ráðgjöf og stefnumótun.  

Skilgreining félagsins á almannatengslum er byggð á skilgreiningu The Institute of Public Relations (IPR), sem er eftirfarandi: Almannatengsl eru markviss viðleitni til að koma á og viðhalda gagnkvæmum skilningi milli fyrirtækis, samtaka eða stofnunar og hlutaðeigandi hópa.

5. grein - Félagsaðild
Til að vera fullgildur félagi þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
  • Starfa við almannatengsl, eða 
  • Hafa menntun á sviði almannatengsla og/eða sinna kennslu í faginu. 
  • Stjórn félagsins er heimilt að veita undanþágu í sérstökum tilfellum.
 Aukaaðild  
  • Eru við nám í almannatengslum. 
  • Hafa tekið sér tímabundið hlé frá störfum við almannatengsl. 
  • Hafa starfað við almannatengsl en eru komnir á eftirlaun.

Félagsgjald vegna aukaaðildar er helmingur af fullu félagsgjaldi. Félagar með aukaaðild hafa ekki atkvæðisrétt á fundum félagsins.

Heiðursfélagar
Félagið mun leitast við að heiðra þá einstaklinga sem:
  • Hafa skilað framúrskarandi starfi í þágu almannatengsla á sínu sviði. 
  • Hafa leyst hafa af hendi mikilsverð störf fyrir félagið eða fagið.
6. grein - Siðareglur
Félagið setur félagsmönnum siðareglur sem þeim ber að fylgja. Hægt er að kæra félagsmann fyrir brot á siðareglum og skal siðanefnd, skipuð fimm mönnum sem kosnir eru á aðalfundi, taka fyrir kærur og fella úrskurð. Ef ágreiningsmál koma upp innan siðanefndar ræður meirihluti atkvæða nefndarmanna
7. grein - Fundarseta
Rétt til setu á fundum félagsins hafa allir félagsmenn.
8. grein - Brottvikning
Heimilt er að víkja félögum úr félaginu ef þeir uppfylla ekki lengur skilyrði fyrir félagsaðild eða hafa gerst sekir um alvarlegt brot á siðareglum þess.

9. grein - Reikningsár
Reikningsár félagsins er á milli aðalfunda. Reikningum skal skilað til kjörinna skoðunarmanna reikninga, og skulu endurskoðaðir reikningar liggja fyrir 14 dögum fyrir aðalfund.

10. grein - Aðalfundur
Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir 30. september ár hvert. Til aðalfundar skal boða með óyggjandi hætti, í síðasta lagi tveimur vikum fyrir fund. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum á aðalfundi nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum þessum. Þeir einir hafa atkvæðisrétt sem hafa greitt félagsgjald fyrir árið og eru skuldlausir við félagið.

11. grein - Dagskrá aðalfundar
Dagskrá aðalfundar skal vera:
  1. Skýrsla stjórnar
  2. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins
  3. Umræður um skýrslu og reikninga 
  4. Lagabreytingar 
  5. Kosning stjórnar fyrir næsta starfsár
  6. Kosning siðanefndar
  7. Kosning endurskoðanda
  8. Önnur mál 

12. grein - Lagabreytingar
Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundum þess. Tillögum til lagabreytinga skal skila 10 dögum fyrir aðalfund til stjórnar og skal stjórn í fundarboði geta þess ef lagabreytingartillaga hefur komið fram. Nái lagabreytingartillaga samþykki 2/3 hluta fundarmanna telst hún samþykkt.

13. grein - Félagsstjórn
Stjórn félagsins skipa fimm menn.
14. grein - Verkaskipting 
Stjórnin skiptir með sér verkum.
15. grein - Stjórnarkjör
Stjórn er kjörin til eins árs í senn.

16. grein - Ábyrgð stjórnar
Stjórn félagsins fer með málefni félagsins með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Hún tekur ákvarðanir um starfsemi og er ábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum félagsins.

17. grein - Stjórnarfundir
Stjórnarfundi skal boða með tryggum hætti með þriggja daga fyrirvara. Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef minnst þrír stjórnarmenn sækja fund. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Ef atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.

18. grein - Félagsfundur
Stjórn félags er skylt að boða til almenns félagsfundar ef minnst 25 prósent félagsmanna óska þess. Félagsfundir skulu kynntir með minnst sjö daga fyrirvara.


Höfundur

Almannatengslafélag Íslands
Almannatengslafélag Íslands
Blogg um allt sem er að gerast hjá fagfélagi íslenskra almannatengla.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband