Leita í fréttum mbl.is

Siðareglur A.Í.

1. kafli – Persónuleg og fagleg heilindi

(a) Félagi skal ástunda persónuleg og fagleg heilindi í starfi sínu. Með persónulegum heilindum er átt við hegðun sem er í samræmi við góða almenna siðferðisvitund. Með faglegum heilindum er átt við hegðun sem er í samræmi við siðareglur félagsins.

(b) Félagi virðir í starfi hagsmuni almennings.

(c) Félagi veitir ekki af ásetningi villandi eða rangar upplýsingar.

(d) Félagi tekur ekki að sér verkefni sem eru til þess fallin að rýra traust almennings á starfi og virðingu stéttarinnar.

(e) Félagi leitast ávallt við að gefa raunsanna mynd af þeirri stofnun, félagi, einstaklingi eða fyrirtæki sem hann vinnur fyrir.

(f) Félagi skaðar ekki af ásettu ráði faglegt orðspor eða starfsemi annarra félaga eða samstarfsmanna.


2. kafli – Framkoma gagnvart viðskiptavinum og vinnuveitendum


(a) Félagi hefur þá almennu skyldu að sýna viðskiptavinum og vinnuveitendum, núverandi og fyrrverandi, fyllstu sanngirni og trúnað.

(b) Félagi tekur ekki að sér verkefni fyrir beina keppinauta viðskiptavinar án vitundar viðkomandi.

(c) Í starfi sínu beitir félagi ekki aðferðum sem gera lítið úr viðskiptavinum eða vinnuveitendum annarra félaga eða sem geta verið niðurlægjandi fyrir þá.

(d) Félagi skal ekki taka við greiðslu fyrir sama verk frá tveimur eða fleiri aðilum án vitundar viðkomandi aðila.


3. kafli – Siðanefnd

(a) Hlutverk siðanefndar er að fjalla um kærur sem henni berast um meint brot félagsmanna á þessum siðareglum.

(b) Hver sá sem telur að félagi hafi brotið siðareglurnar og á hagsmuna að gæta getur kært meint brot með skriflegum hætti til siðanefndar innan tveggja mánaða frá því meint brot var framið.

(c) Í siðanefnd eiga sæti fimm menn sem kjörnir eru á aðalfundi félagsins.

(d) Nefndarmenn skulu víkja sæti úr nefndinni ef þeir teljast vanhæfir í einstökum málum eða vafi leikur á hlutleysi þeirra.

(e) Komi fram kvörtun frá kærða eða kæranda um meint vanhæfi nefndarmanns skal stjórn félagsins skera úr um hvort viðkomandi nefndarmaður telst vanhæfur.

(f) Stjórn félagsins tilnefnir varamann í siðanefnd þegar nefndarmaður telst vanhæfur eða er forfallaður á annan hátt.

(g) Nefndinni er heimilt að leita sátta áður en úrskurður er kveðinn upp. Hún getur einnig vísað máli frá ef hún telur það vanreifað.

(h) Hafi sættir ekki náðst skal siðanefnd fella rökstuddan úrskurð innan tuttugu virkra daga frá því gagnaöflun nefndarinnar telst lokið. Úrskurðir siðanefndar skulu birtir á vef félagsins.

(i) Siðanefnd gerir sér vinnureglur um meðferð á kærum og skulu þær vinnureglur staðfestar af stjórn félagsins.

(j) Vinnureglur siðanefndar skulu birtar á vef félagsins.

Siðareglum AÍ var síðast breytt 23.11.04.

Höfundur

Almannatengslafélag Íslands
Almannatengslafélag Íslands
Blogg um allt sem er að gerast hjá fagfélagi íslenskra almannatengla.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband